Fótbolti

Klose ætlar sér að bæta metið hans Ronaldo á HM 2014

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Miroslav Klose fagnar marki fyrir þýska landsliðið.
Miroslav Klose fagnar marki fyrir þýska landsliðið. Mynd/Nordic Photos/Getty
Miroslav Klose, framherji þýska landsliðsins, sagði í dag að hann væri búinn að setja stefnuna á að bæta markamet HM þegar keppnin fer fram í Brasilíu eftir tæp þrjú ár.

Klose er orðinn 33 ára gamall og verður því orðinn 36 ára þegar HM í Brasilíu fer fram. Hann hefur skorað 62 mörk í 112 landsleikjum þar af hafa fjórtán markanna komið í úrslitakeppni HM.

Brasilíumaðurinn Ronaldo á markametið á HM en hann skoraði sitt fimmtánda mark á HM í Þýskalandi 2006.

„Ef allt gengur eftir þá mun ég spila með Lazio fram að HM 2014 og leggja síðan skóna á hilluna," sagði Klose í viðtali hjá þýska blaðinu Kicker. Klose skoraði sigurmarkið fyrir Lazio um helgina í nágrannaslagnum við Roma.

Klose skoraði fimm mörk á HM 2002 og HM 2006 en hann skoraði síðan fjögur mörk á HM í Suður-Afríku síðasta sumar.

Metið hans Ronaldo er ekki eina metið sem hann er að elta því Klose vantar aðeins sex mörk til að bæta markamet Gerd Muller og verða markahæsti leikmaður þýska landsliðsins frá upphafi.

„Allir sem þekkja mig og minn metnað vita að það met höfðar til mín," sagði Klose er hann skoraði 9 mörk fyrir þýska landsliðið í undankeppni EM 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×