Fótbolti

Pele: Ég mun senda Messi heimildarmynd um ferillinn minn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pele.
Pele. Mynd/Nordic Photos/Getty
Pele er á ferðalagi í Japan þar sem hann heimsækir fórnarlömb jarðskjálftans og flóðbylgjunnar í mars síðast liðinum. Þar var þessi goðsögn spurður út í viðtal við Lionel Messi, leikmanns Barcelona, þar sem að argentínski snillingurinn sagðist aldrei hafa séð Pele spila.

„Það er alveg eðlilegt að leikmaður hafi ekki áhuga á því að vera borinn saman við leikmann frá öðrum tíma," sagði Pele í viðtali við Globoesporte en bætti svo við:

„Ef það er satt að hann hafi ekki séð mig spila þá geri ég bara það sama og ég gerði með Diego Maradona á sínum tíma. Ég mun senda honum eintak af heimildarmyndinni Pele Eterno og þá getur hann ekki lengur sagt að hann hafi ekki séð mig spila," sagði Pele sem er alltaf léttur.

Pele hefur ekki áhyggjur af brasilíska landsliðinu í aðdraganda þess að Heimsmeistarakeppnin fer næst fram í Brasilíu.

„Brasilía hefur fullt af frábærum leikmönnum. Það tekur bara sinn tíma að setja liðið saman því við getum auðveldlega búið til fimm heimsklassa lið," sagði Pele.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×