Fótbolti

Anzhi bauð Mourinho fjóra milljarða í árslaun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mourinho hafnaði tilboði Anzhi, er fullyrt í Marca.
Mourinho hafnaði tilboði Anzhi, er fullyrt í Marca. Nordic Photos / Getty Images
Samkvæmt frétt sem birtist í spænska dagblaðinu Marca í gær mun rússneska félagið Anzhi Makhachkala boðið Jose Mourinho gull og græna skóga fyrir að taka við stjórn liðsins.

Tilboðið mun hafa borist til Mourinho á fyrstu mánuðum ársins þegar að framtíð hans hjá Real Madrid var í nokkurri óvissu. Það mun hafa hljómað upp á 25 milljónir evra í árslaun eða rúmlega fjóra milljarða króna.

Það þarf varla að taka fram að Mourinho hefði þar með orðið langtekjuhæsti knattspyrnuþjálfari heims en félagið keypti á dögunum Samuel Eto'o frá Inter og er hann nú meðal tekjuhæstu knattspyrnumanna heimsins.

Rússneskir fjölmiðlar greindu svo frá því fyrr í þessari viku að félagið er nú að leita sér að nýjum stjóra fyrir næsta tímabil og mun Guus Hiddink vera efstur á óskalista félagsins.

Hiddink var áður landsliðsþjálfari Rússlands en er nú við stjórnvölinn hjá Tyrkjum.

Marca heldur því einnig fram að Mourinho hafi áður hafnað tilboði frá Manchester City sem mun hafa boðið honum 20 milljónir evra í árslaun, sem og tilboði tyrkneska félagsins Besiktas sem var sagt reiðubúið að borga Mourinho hvað sem er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×