Enski boltinn

Drogba stefnir á að ná leiknum gegn United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Didier Drogba eftir að hann var sleginn óviljandi í rot af John Ruddy, markverði Norwich.
Didier Drogba eftir að hann var sleginn óviljandi í rot af John Ruddy, markverði Norwich. Nordic Photos / Getty Images
Didier Drogba mun nánast örugglega missa af næstu tveimur leikjum Chelsea en hann stefnir að því að ná leik liðsins gegn Manchester United eftir rúma viku.

Drogba rotaðist í leik gegn Norwich fyrir landsleikjafríið og var fluttur meðvitundarlaus upp á sjúkrahús. Síðar kom í ljós að hann fékk vægan heilahristing.

„Hann hefur í raun fengið grænt ljós á að byrja að æfa á nýjan leik en hann hefur verið að taka léttar æfingar að undanförnu,“ sagði Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea, við enska fjölmiðla.

Chelsea mætir Sunderland um helgina og svo Bayer Leverkusen í Meistaradeild Evrópu í næstu viku. Villas-Boas segir nánast öruggt að hann muni missa af þeim leikjum.

„Fyrstu dagana eftir meiðslin voru honum afar sársaukafullir. Fjölskyldan og læknarnir okkar fygldust með honum allan sólarhringinn. Síðan þá hefur hann fengið allan þann stuðning sem hann hefur þurft á að halda. Við þurfum að ganga úr skugga um að hann sé orðinn algjörlega heill heilsu áður en hann spilar á ný.“

Villas-Boas var einnig spurður um þá Raul Meireles og Luka Modric. Þann fyrrnefnda keypti hann frá Liverpool en Tottenham hafnaði tilboðum Chelsae í Modric.

„Við vildum fá einn mann til viðbótar til að styrkja miðjuna og það var frábær hugmynd að fá Raul. Við erum ánægðir með að hafa fengið hann,“ sagði Villas-Boas.

Króatinn Modric vildi sjálfur ólmur fara til Chelsea en forráðamenn Tottenham neituðu einfaldlega að selja hann. Villas-Boas er efins um að félagið muni leggja fram annað tilboð í janúar næstkomandi.

„Ég efast um það. Glugginn opnar aftur í janúar og þá getur ýmislegt gerst. En ég ætla ekki að velta vöngum yfir því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×