Enski boltinn

Wales mun heiðra og hylla ævi Gary Speed í næsta landsleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Speed og Ryan Giggs.
Gary Speed og Ryan Giggs. Mynd/Nordic Photos/Getty
Phil Pritchard, forseti Wales, segir í viðtali við Guardian að næsti landsleikur Wales, sem verður vináttuleikur 29. febrúar næstkomandi, muni vera tilefni til að heiðra og halda upp á líf Gary Speed sem stytti sér aldur á sunnudagsmorguninn.

Gary Speed var aðeins 42 ára gamall en hann var búinn að vera landsliðsþjálfari Wales í eitt ár. Velska landsliðið var búið að gera flotta hluti upp á síðkastið og það var komin bjartsýni í þeirrar herbúðir að liðið gæti komist inn á HM 2014 sem yrði þá fyrsta stórmót Wales síðan á HM 1958 í Svíþjóð.

Knattspyrnusamband Wales er ekki enn búið að finna mótherja eða leikstað í umræddum landsleik en það er ljóst að ef leikurinn fer fram í Wales þá mun hann vera spilaður í minningu Gary Speed.

Velska sambandið ætlar að gefa fjölskyldu Gary Speed tíma til að syrgja áður en verður farið að skipuleggja hvernig hans verður minnst. Leikurinn 29. febrúar verður engu að síður mikilvægur undirbúningur fyrir undankeppni HM og fyrsti leikur liðsins undir stjórn nýs þjálfara.

Það hefur reyndar komið upp hugmynd að leikurinn yrði á milli núverandi og fyrrverandi landsliðsmanna Wales eða á milli velska landsliðsins og úrvalsliðs skipað leikmönnum úr gömlu félögum Gary Speed. Þetta mun allt koma betur í ljós þegar nær dregur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×