Fótbolti

Villas-Boas getur komist í sögubækurnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
André Villas-Boas, stjóri Porto frá Portúgal, getur orðið yngsti knattspyrnustjórinn frá upphafi til að stýra liði til sigurs í Evrópukeppni í næstu viku.

Porto mætir þá löndum sínum í Braga í úrslitaleik Evrópudeildar UEFA en leikurinn fer fram í Dyflinni á Írlandi á miðvikudagskvöldið.

Villas-Boas verður 33 ára og 213 daga gamall á þessum degi en hann stýrði Porto til sigurs í deildinni heima fyrr í vor.

Gianluca Vialli á núverandi met en hann var 33 ára og 308 daga gamall þegar hann var spilandi þjálfari hjá Chelsea sem vann Evrópukeppni bikarhafa um vorið 1998.

Sá yngsti til að komast í úrslitaleik í Evrópukeppni er þó Englendingurinn Bob Houghton. Hann var 31 árs gamall þegar að lið hans, Malmö frá Svíþjóð, tapaði fyrir Nottingham Forest í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða árið 1979.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×