Fótbolti

Bosingwa valinn aftur í landslið Portúgals

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Bosingwa í leik með Chelsea.
Jose Bosingwa í leik með Chelsea. Nordic Photos / Getty Images
Jose Bosingwa, bakvörðurinn öflugi í liði Chelsea, er aftur kominn í náðina hjá Paulo Bento, landsliðsþjálfara Portúgals.

Bosingwa var aftur valinn í landsliðið fyrir leikina gegn Bosníu í umspilsleikjum liðanna fyrir EM 2012 í næsta mánuði, eftir því sem kemur fram í portúgölskum fjölmiðlum.

Bosingwa hefur ekki spilað með landsliðí Portúgals síðan í nóvember á síðasta ári þrátt fyrir að vera lykilmaður hjá Chelsea. Bento hefur frekar kosið að nota þá Joao Pereira og Silvio í stöðu hægri bakvarðar.

Portúgal mistókst hins vegar að komast beint upp úr undankeppninni þar sem liðið tapaði fyrir Danmörku, 2-1, í lokaumferð riðlakeppninnar. Nokkrum dögum áður fékk Portúgal svo þrjú mörk á sig í 5-3 sigri á okkur Íslendingum.

Bento hefur því ef til vill hug á að styrkja varnarleikinn fyrir leikina mikilvægu gegn Bosníu en þeir fara fram dagana 11. og 15. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×