Íslenski boltinn

Þórarinn Ingi: Hentar mér vel að hlaupa og berjast

Eiríkur Stefán Ásgeirsson á Nettóvellinum skrifar
Þórarinn Ingi í leik með ÍBV fyrr á tímabilinu.
Þórarinn Ingi í leik með ÍBV fyrr á tímabilinu. Mynd/Anton
Þórarinn Ingi Valdimarsson lék í nýrri stöðu í liði ÍBV í kvöld en komst vel frá sínu er sínir menn fögnuðu 2-0 sigri á Keflavík í kvöld.

Þórarinn Ingi lék sem varnarsinnaður miðjumaður ásamt Finni Ólafssyni sem lék sinn fyrsta leik á tímabilinu í kvöld. Hann var þó fljótur að bregða sér í sóknina þegar á þurfti að halda.

„Það var lagt upp með að spila þennan leik af mikilli grimmd og hörku og mér fannst það ganga eftir,“ sagði Þórarinn Ingi en ÍBV skoraði bæði sín mörk á fyrstu tíu mínútum leiksins.

„Við mættum tilbúnir til leiks strax á fyrstu mínútu og það er eitthvað sem hefur vantað hjá okkur í sumar. Við hefðum getað klárað leikinn með einu marki í viðbót en samt fannst mér þetta vera öruggt allan tímann.“

Þórarinn Ingi kann vel við sig í þessari stöðu. „Ég hef spilað í ýmsum stöðum í þessu liði enda er Heimir þjálfari duglegur að breyta og færa til í liðinu. Það svínvirkar hjá honum.“

„Þetta hentaði mér í kvöld - að hlaupa og berjast,“ sagði hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×