Enski boltinn

Enskur fjölmiðill segir KR vilja fá Eið Smára

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári í leik með Stoke gegn Manchester United.
Eiður Smári í leik með Stoke gegn Manchester United. Nordic Photos / AFP

Enski vefmiðillinn Talksport fullyrðir í dag að KR hafi áhuga á að fá Eið Smára Guðjohnsen til liðs við félagið.

Eiður Smári er á mála hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Stoke City en hefur ekkert fengið að spila með liðinu síðan í október. Hann er sagður á leið frá félaginu og hefur verið orðaður við ýmis félög.

Nú hefur KR bæst í þann hóp. Eiður þekkir þar vel til enda lék hann með félaginu árið 1998 áður en hann samdi við Bolton og hóf þar feril sinn í ensku knattspyrnunni.

Samkvæmt heimildum Vísis vill Eiður Smári kaupa upp samninginn sinn við Stoke en þetta er í fyrsta sinn sem hann er mögulega sagður aftur á leið í íslenska boltann.

„Valið stóð á milli Tuncay og Eiðs," sagði Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, við Vísi og hló.

„Stundum veltur maður fyrir sér hvað sumir blaðamenn í Englandi hafa fyrir sér í svona fréttaflutningi. Auðvitað er ekkert til í þessu. Eiður Smári er ekki á leið til Íslands."

„Eiður hefur æft með okkur þegar hann hefur verið á landinu í gegnum tíðina og hann er auðvitað alltaf velkominn aftur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×