Enski boltinn

Tíu West Ham menn unnu fyrri leikinn á móti Birmingham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Noble fagnar hér marki sínu.
Mark Noble fagnar hér marki sínu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Carlton Cole kom inn á sem varamaður og tryggði West Ham 2-1 sigur á Birmingham í fyrri undanúrslitaleik liðanna í enska deildarbikarnum á Upton Park í kvöld. West Ham tókst að tryggja sér sigurinn þrátt fyrir að vera aðeins með tíu menn inn á vellinum síðasta hálftímann í leiknum.

Mark Noble kom West Ham í 1-0 strax á 13. mínútu leiksins með þrumuskoti og lærisveinar Avram Grant voru mun betri í fyrri hálfleiknum. Birmingham-liðið byrjaði seinni hálfleikinn hinsvegar af miklum krafti og Liam Ridgewell jafnaði leikinn á 56. mínútu.

West Ham missti mann af velli strax í kjölfarið þegar Victor Obinna fékk beint rautt spjald á 59. mínútu. Það kom þó ekki í veg fyrir að West Ham liðið tryggði sér sigurinn.

Carlton Cole kom inn á sem varamaður fyrir Frédéric Piquionne á 75. mínútu og aðeins þremur mínútum síðar var hann búinn að skora. Markmið skrifast þó algjörlega á Ben Foster, markvörð Birmingham, sem missti laflaust og hættulítið skot Cole undir sig.

Seinni leikur liðanna fer fram á St Andrew's-vellinum í Birmingham miðvikudaginn 26. janúar næstkomandi. Ipswich og Arsenal mætast hinsvegar í fyrri leik sínum á Portman Road í Ipswich á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×