Enski boltinn

Oxlade-Chamberlain var næstum búinn að velja ruðning

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Litlu mátti muna að Alex Oxlade-Chamberlain, leikmann Arsenal og enska U-21 liðsins, hann hefði valið ruðning fram yfir knattspyrnuna þegar hann var yngri.

Oxlade-Chamberlain skoraði þrennu gegn Íslandi á Laugardalsvellinum á fimmtudagskvöldið þegar að U-21 lið landanna mættust í undankeppni EM 2013.

Hann er uppalinn hjá Southampton og segir að það hafi verið vegna pabba síns að hann valdi á endanum knattspyrnuna.

„Það var ekki fótboltalið í skólanum mínum heldur var spilaður ruðningur og krikket. Ég var á íþróttastyrk í skólanum og neyddist því til að spila ruðning. Ég var ágætur í honum,“ sagði Oxlade-Chamberlain í viðtali við The Sun í dag. Hann segir að honum hafi verið boðið að æfa með reynslu hjá atvinnumannaliði en að Southampton hafi komið í veg fyrir það.

Faðir hans er Mark Chamberlain sem á sínum tíma lék átta leiki með enska landsliðinu í knattspyrnu.

„Það er mikið vit í því sem pabbi segir og hann hefur haldið mér á jörðinni. Hann hefur hvatt mig áfram en líka sagt mér til þegar ég hef staðið mig illa.“

„Hann hefur alltaf sagt að ég verði að ná fleiri landsleikjum en hann og það hvetur mig ávallt til dáða. Ef ég hefði ekki viljað gerast knattspyrnumaður hefði hann örugglega neytt mig til þess.“

„En ég hafði alltaf löngun til að gerast knattspyrnumaður og sýndi það frá fyrsta degi. Hann hefur alltaf verið mér innan handar og er nú að gera það sama fyrir Christian, bróður minn sem er þrettán ára gamall. Hann er næsta gæluverkefni pabba míns,“ sagði hann í léttum dúr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×