Enski boltinn

Redknapp vill að Adabayor taki á sig launalækkun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Adebayor, til hægri, bregður á leik með liðsfélaga.
Adebayor, til hægri, bregður á leik með liðsfélaga. Nordic Photos / Getty Images
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, vill að Emanuel Adebayor taki á sig launalækkun og geri langtímasamning við félagið. Adebayor er nú hjá Tottenham sem lánsmaður hjá Manchester City.

Adebayor hefur staðið sig vel síðan hann kom til Tottenham og skorað þrjú mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum.

Hann er eins og margir aðrir leikmenn hjá City á himinháum launum sem önnur félög hafa einfaldlega ekki efni á að borga. Adebayor þiggur um 150 þúsund pund í vikulaun sem stendur.

„Það er ekki spurning að ég myndi vilja halda Emmanuel hjá liðinu ef hann stendur sig áfram svona vel,“ sagði Redknapp við enska fjölmiðla. „En það er alveg ljóst að við höfum ekki á að borga honum þessi laun.“

„Ég hef ekki hugmynd um hversu stóran hluta af hans launum við erum að borga nú. Stjórnarformaðurinn sér um þessi mál en ég tel líklegt að City greiði enn stóran hluta af hans launum.“

„Ef Emmanuel vill spila áfram með Tottenham á næstu árum er eina raunhæfa leiðin til þess að hann taki á sig umtalsverða launalækkun og setji fótboltann í fyrsta sætið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×