Liverpool og Manchester City komust áfram í enska deildarbikarnum í kvöld. Liverpool vann 2-1 sigur á Brighton & Hove Albion en Manchester City sló út deildarbikarmeistara Birmingham. Leikur Chelsea og Fulham endaði með markalaust jafntefli og framlenging stendur nú yfir.
Liverpool lenti í basli með Brighton & Hove Albion sem er á toppnum í ensku b-deildinni. Liverpool vann leikinn á endanum 2-1 þar sem Brighton minnkaði muninn úr vítaspyrnu í lok leiksins.
Craig Bellamy kom Liverpool í 1-0 eftir sjö mínútur í sínum fyrsta leik í byrjunarliðinu. Hann skoraði með skoti úr teignum eftir að hafa fengið sendingu frá Luis Suarez. Bellamy var nálægt því að bæta við marki á 41. mínútu þegar þrumuskot hans af löngu færi úr aukaspyrnu small í þverslánni.
Steven Gerrard kom inn á sem varamaður þegar fimmtán mínútur voru eftir og lék sinn fyrsta leik fyrir Liverpool síðan í mars. Dirk Kyut innsiglaði síðan sigurinn á 81. mínútu eftir laglegan undirbúning frá Maxi Rodriguez en Ashley Barnes minnkaði muninn úr víti í blálokin.
Manchester City vann 2-0 sigur á deildbikarmeisturum Birmingham þar sem Roberto Mancini, stjóri City, hvíldi marga lykilmenn.
Owen Hargreaves fagnaði því, að ná að spila meira en tíu mínútur í fyrsta sinn í þrjú ár, með að koma Manchester City í 1-0 á 17. mínútu með þrumuskoti fyrir utan teig. Mario Balotelli bætti síðan við öðrum marki á 38. mínútu og fleiri urðu mörkin ekki.
Úrslit og markaskorarar í enska deildarbikarnum í kvöld:
Brighton & Hove Albion - Liverpool 1-2
0-1 Craig Bellamy (7.), 0-2 Dirk Kuyt (81.), 1-2 Ashley Barnes, víti (90.)
Cardiff City - Leicester City 2-2 (framlengt)
1-0 Don Cowie (33.), 1-1 Steve Howard (40.), 1-2 Lloyd Dyer (66.), 2-2 Rudy Gestede (82.)
Chelsea - Fulham 0-0 (framlengt)
Manchester City - Birmingham 2-0
1-0 Owen Hargreaves (17.), 2-0 Mario Balotelli (38.)
Southampton - Preston North End 2-1
1-0 Jos Hooiveld (27.), 1-1 Adam Barton (51.), 2-1 Adam Lallana (70.)
Bellamy og Hargreaves á skotskónum í enska deildarbikarnum
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
