Enski boltinn

Síðasta viðtalið við Gary Speed: Þrjú orð lýsa mér best

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Speed
Gary Speed Mynd/AP
Síðasta viðtal Gary Speed hefur nú komið fram í sviðsljósið en það var við blaðamann FourFourTwo blaðsins. Speed svipti sig lífi á sunnudaginn eins og margoft hefur komið fram en hann talar um mikilvægi fjölskyldu sinnar í viðtalinu.

Speed var giftur Louise frá árinu 1996 og áttu þau saman tvo unglingspilta. Blaðamaður FourFourTwo spurði hann hvað væri honum mikilvægast í lífinu.

„Það sem ég met mest eru ekki efnislegir hlutir. Ég veit ekki einu sinni hvar gullpeningurinn minn er frá því að ég var enskur meistari með Leeds. Fjölskyldan mín er mér mikilvægust. Við erum eitt og þau skipta mig öllu máli," sagði Gary Speed.

„Þrjú orð lýsa mér best: Vinnusamur, heiðarlegur og sjálfsgagnrýninn," sagði Speed og talaði síðan einnig um að hann hafi verið stoltastur á ferlinum þegar hann tók við fyrirliðabandinu hjá Wales en sorglegasta stundin hafi verið þegar hann fór frá Newcastle árið 2004 eftir sjö ára veru hjá félaginu.  "Fótboltinn skilur þig endalaust eftir í ástarsorg," sagði Speed.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×