Enski boltinn

Sir Alex bað stuðningsmenn United afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, var allt annað en ánægður með sína leikmenn eftir óvænt tap á móti Crystal Palace í enska deildarbikarnum í gærkvöldi.

Ferguson stillti upp varaliði í leiknum en það voru engu að síður níu landsliðsmenn í liðinu. Crystal Palace var fyrir leikinn ekki búið að skora í fimm leikjum í röð í 1. deildinni en skoraði tvö á Old Trafford í gær.

„Ég er svo vonsvikinn. Ég verð bara að biðja stuðningsmenn okkar afsökunar sem og þá leikmenn sem voru ekki að spila. Við bjuggumst aldrei við þesssu," sagði Sir Alex Ferguson við Sky Sports.

„Það á að skipta menn miklu máli að fara út á völl í búningi Manchester United. Við þurfum að standa vörð um hefð og stolt félagsins. Hver leikur er því mikilvægur en við sáum það ekki á leikmönnum okkar í kvöld," sagði Ferguson.

„Það voru níu landsliðsmenn í liðinu í kvöld svo þetta voru mikil vonbirgði," sagði Ferguson sem hrósaði jafnframt liði Crystal Palace.

„Þeir lögðu mikið á sig og eiga skilið að komast alla leið í úrslitaleikinn," sagði Ferguson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×