Íslenski boltinn

Garðar Gunnlaugssson til ÍA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/SNS
Garðar Gunnlaugsson er genginn til liðs við uppeldisfélagið sitt, ÍA, en hann skrifaði undir eins árs samning í dag. Þetta staðfesti hann í samtali við Vísi.

Garðar lék síðast með Val hér á landi árið 2006 en síðan þá hefur hann spilað í Svíþjóð, Búlgaríu, Skotlandi, Austurríki og nú síðast Þýskalandi. Hann gekkst undir aðgerð vegna meiðsla í baki í ágúst en hefur verið staddur á Akranesi síðasta mánuðinn þar sem hann hefur æft.

„Ræturnar toguðu mig heim. Ég hef verið að æfa með Dean Martin, aðstoðarþjálfara ÍA, og hef líka mikið rætt við Dodda þjálfara [Þórð Þórðarson] og Dodda framkvæmdarstjóra [Þórð Guðjónsson. Við ákváðum bara að klára málið og þá gekk þetta mjög fljótt fyrir sig,“ sagði Garðar.

„Ég held að við séum komnir með hörkuhóp. Jóhannes Karl [Guðjónsson] er á leiðinni og Ármann Smári er líka kominn. Þetta lítur vel út hjá ÍA,“ sagði hann.

Hann segir að sér líði vel eftir aðgerðina en hann átti orðið erfitt með ganga. „Ég fékk brjósklos í mjóbakinu og hef verið að vinna í því að styrkja mig síðustu mánuðina. Undanfarnar vikur hef ég svo verið að æfa með bolta og mér líður bara mjög vel.“

ÍA verður nýliði í Pepsi-deildinni á næstu leiktíð en Garðar telur að það séu spennandi tímar fram undan á Skaganum - líka fyrir sig persónulega. „Ég hlakka til að halda mér heilum og sýna bæði umheiminum og sjálfum mér að ég get enn spilað fótbolta. Það er tilvalið að koma aftur heim á Skagann, þar sem ég varð bæði Íslands- og bikarmeistari á sínum tíma. Vonandi getum við endurvakið þá gömlu, góðu daga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×