Fótbolti

Terek Grozny býður Ronaldo 964 milljónir fyrir 18 mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldo.
Ronaldo. Mynd/AP
Tsjetsjenska liðið Terek Grozny ætlar að reyna að plata brasilíska knattspyrnumanninn Ronaldo til þess að taka skóna af hillunni og spila með liðinu í rússnesku deildinni. Það er mikill hugur í félaginu sem réði nýverið Ruud Gullit sem knattspyrnustjóra.

Ronaldo tilkynnti um að hann væri hættur fyrir aðeins tveimur vikum síðan en hann er 34 ára gamall og fyrrum besti knattspyrnumaður heims í þrígang. Tsjetsjenarnir bjóða honum sex milljónir evra fyrir átján mánaða samning sem gerir um 964 milljónir íslenskra króna. Ronaldo yrði þá launahæsti leikmaðurinn í rússnesku deildinni.

Kaka, Ronaldo og Ronaldinho eru að fara spila góðgerðaleik í Tsjetsjeníu með heimsmeistaraliði Brasilíu frá 2002 og forráðamenn Terek Grozny ætla að nota tækifærið til þess að hitta Ronaldo. Þeir hafa þegar sent fyrirspurn til Brasilíu en Ronaldo hefur enn ekki svarað henni samkvæmt frétt í rússneska blaðinu Tvoi Den.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×