Fótbolti

Fær Ísland atkvæðisrétt næst þegar kosið verður um gestgjafa HM?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sepp Blatter, forseti FIFA.
Sepp Blatter, forseti FIFA. Mynd/AP
Sepp Blatter, forseti FIFA, vill breyta fyrirkomulaginu þegar sambandið ákveður hvar heimsmeistarakeppnir sínar fari fram í framtíðinni. Hingað til hefur 24 manna framkvæmdanefnd FIFA gert upp á milli framboða en eftir miklar ásakanir um spillingu innan hennar þá vill Blatter að öll aðildarlönd FIFA fái atkvæðisrétt.

Blatter sagði frá þessari hugmynd sinni í ræðu sinni á FIFA-þinginu í morgun en alls eru 208 þjóðir aðilar af FIFA. Ísland fengi þá atkvæðisrétt þegar næsti leikstaður HM verður ákveðinn.

Blatter er tilneyddur til að gera breytingar á fyrirkomulaginu en það varð allt vitlaust í Englandi þegar enska framboðið fékk aðeins 2 atkvæði í fyrstu umferð þegar framkvæmdanefndin ákvað hvar HM 2018 færi fram.

Það er reyndar langt þar til að FIFA velur næst gestgjafa á HM þar sem að það er búið að ákveða að HM 2014 fari fram í Brasilíu, HM 2018 fari fram í Rússlandi og HM 2022 fari fram í Katar.

Næst verður ákveðið hvar HM 2026 fari fram en það sú ákvörðun verður líklega ekki tekin fyrr en 2018 en þá verður fjórða og síðasta kjörtímabili Blatter löngu lokið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×