Erlent

Flugdólgur hótaði að stinga flugstjórana

British Airways
British Airways Myndin er úr safni
Ölvaður bandarískur kaupsýslumaður var handtekinn eftir hótanir um líkamsmeiðingar um borð í flugvél frá flugfélaginu British Airways á dögunum.

Hinn þrjátíu og tveggja ára Tim Bradley er sagður hafa drukkið mikið magn af víni og bjór í flugvélinni og hafi verið verulega ölvaður. Hann hótaði farþegum og hrækti á meðlimi áhafnarinnar. Breska blaðið The Sun hefur eftir farþegum að hann hafi sveiflað brotnu glasi eftir að honum var neitað um meira áfengi.

„Hann öskraði á farþega og áhöfnina, blótaði og rakst ítrekað utan í farþega þegar hann labbaði eftir ganginum," segir farþegi sem var um borð í vélinni. „Hann hækkaði róminn og blótaði yfirmanni áhafnarinnar. Hann ýtti honum svo inn í eldhúsið og krafðist þess að vita afhverju hann fengi ekki meira áfengi. Á einum tímapunkti sá ég hann halda á brotnu glasi og var tilbúinn að ráðast á áhöfnina," segir farþeginn.

Annar farþegi segir að hann hafi hótað að stinga flugstjóranna. „Hann sagði við fólkið í kringum sig: Ég mun stinga flugstjórana ef það er það sem þeir vilja."

Flugdólgurinn var handtekinn um leið og vélin lenti á Heathrow í London og hefur verið ákærður fyrir að vera ölvaður um borð í flugvél og líkamsárás.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×