Enski boltinn

Moyes um rauða spjaldið: Átti ekki einu sinni að vera aukaspyrna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Atkinson rekur hér Jack Rodwell útaf í dag.
Martin Atkinson rekur hér Jack Rodwell útaf í dag. Mynd/AP
David Moyes, stjóri Everton, var allt annað en sáttur með rauða spjaldið sem

Jack Rodwell fékk strax á 22. mínútu í 0-2 tapi Everton á móti nágrönnum sínum í Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag.

„Þetta eyðilagði leikinn," sagði David Moyes en Everton þurfti að spila manni færri í 68 mínútur og á endanum skoruðu þeir Andy Carroll og Luis Suarez báðir á síðustu 19 mínútum leiksins.

„Það eru margir sem hafa áhyggjur af derby-leikjum og tæklingum og rauðum spjöldum sem líta dagsins ljós í þeim. Þetta var ekki slæm tækling," sagði Moyes og bætti við:

„Ég hefði verið vonsvikinn ef að hann hefði dæmt aukaspyrnu og ég hefði spurt hann á hvað, ef hann hefði lyft gula spjaldinu," sagði Moyes.

„Það er nógu erfitt að mæta Liverpool 11 á móti 11. Þetta var erfiður leikur fyrir okkur sem varð þarna enn erfiðari,"  sagði Moyes.

„Ég held að enginn í heiminum hafi fundist þetta vera rautt spjald en þetta er bara ranglæti sem maður þarf bara að sætta sig við. Ég veit samt ekki hvort við getum áfrjýjað þessu rauða spjaldi," sagði Moyes.

„Liðið mitt gerði allt sem það gat í þessum leik en þegar upp var staðið þá var það ekki dómarinn sem tapaði þessum leik fyrir okkur heldur gerðum við nokkur slæm mistök í vörninni," sagði Moyes að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×