Argentínumaðurinn Sergio Agüero skoraði bæði mörk Manchester City í 2-2 jafnteflinu á móti Fulham í ensku úrvalsdeildinni í dag og hefur þar með skorað átta mörk í fyrstu fimm leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.
Agüero er aðeins annar leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar sem nær að byrja svona vel en Micky Quinn nokkur skoraði tíu mörk í fyrstu sex leikjum sínum með Coventry tímabilið 1992-93 þar af komu átta þeirra í fyrstu fimm leikjunum.
Coventry City keypti Micky Quinn, þá 30 ára gamlan, frá Newcastle United á 250 þúsund pund 20. nóvember 1992. Degi síðar hafði Quinn skorað tvö mörk í fyrsta leiknum sínum á Highfield Road. Quinn skoraði í sex fyrstu leikjum sínum í búningi Coventry þar á meðal tvö mörk í 5-1 stórsigri á Liverpool.
Quinn endaði tímabilið með 17 úrvalsdeildarmörk og skoraði síðan bara 8 úrvalsdeildarmörk tímabilið á eftir. Hann átti ekki mörg góð ár eftir það, lenti meðal annars upp á kant við stjórann hjá Coventry og endaði síðan ferilinn með PAOK í Grikklandi.
Sergio Agüero í góðum félagsskap:
Átta mörk Sergio Agüero í fyrstu fimm leikjunum með Man. City 2011-2012
15. ágúst Man. City-Swansea City 4-0 (2 mörk)
21. ágúst Bolton-Man. City 2-3 (0 mörk)
28. ágúst Tottenham-Man. City 1-5 (1 mark)
10. september Man. City-Wigan 3-0 (3 mörk)
18. september Fulham-Man. City 2-2 (2 mörk)
Tíu mörk Micky Quinn í fyrstu sex leikjunum með Coventry 1992-1993
21. nóvember Coventry-Man. City 2-3 (2 mörk)
28. nóvember Sheff. United-Convetry 1-1 (1 mark)
5. desember Coventry- Ipswich 2-2 (1 mark)
12. desember Southampton-Coventry 2-2 (2 mörk)
19. desember Coventry-Liverpool 5-1 (2 mörk)
26. desember Coventry-Aston Villa 3-0 (2 mörk)
*Quinn skoraði ekki í sjöunda leiknum sem var 0-5 tap fyrir Manchester United á Old Trafford.
