Íslenski boltinn

Umfjöllun: FH lagði andlausa Blika

Henry Birgir Gunnarsson á Kópavogsvelli skrifar
Íslandsmeistararnir mæta bikarmeisturunum í Kópavogi í kvöld.
Íslandsmeistararnir mæta bikarmeisturunum í Kópavogi í kvöld. Mynd/Pjetur
Breiðablik er komið niður í níunda sæti í Pepsi-deild karla eftir 0-1 tap gegn FH á Kópavogsvelli í kvöld. Það var Emil Pálsson sem skoraði eina mark leiksins.

Leikurinn byrjaði með rosalegum látum og bæði lið sóttu á víxl. Blikar fengu þrjú dauðafæri á fyrsta korterinu. Rafn Andri klikkaði í tvígang og þar af fór skalli frá honum í stöng. Kristinn Jónsson fékk síðan frían skalla en hann skallaði beint á Gunnleif.

Atli Guðnason var sterkur hinum megin og komst í tvígang í fín færi. Fyrst skaut hann yfir og svo lét hann Ingvar verja frá sér er hann komst einn í gegn.

Ótrúlega lífleg byrjun og ótrúlegt að engin mörk hafi litið dagsins ljós.

Markið kom loks á 30. mínútu leiksins. Emil Pálsson fór þá í flott þríhyrningsspil við Matthías Vilhjálmsson og komst í gegn. Emil kláraði færið með stæl og kom FH yfir.

Blikar voru sem rotaðir eftir markið og gátu nákvæmlega ekki neitt síðasta korterið. Breytti engu þó svo leikmenn hafi skipt um stöður í sókninni.

FH-ingar sköpuðu það litla sem eftir lifði hálfleiks en ekki kom annað mark.

Blikum gekk ekkert sérstaklega að rífa sig upp í seinni hálfleiknum. Kristinn Jónsson var sá eini sem gerði eitthvað af viti hjá Blikum en aðrir voru meira í að hengja haus.

FH-ingar gáfu nokkuð eftir en hefðu að ósekju átt að sækja grimmar á Blikana og klára leikinn. Algjör óþarfi að halda Blikunum volgum.

Síðari hálfleikur var annars meira og minna tíðindalítill og lengstum leiðinlegur.

FH-ingar halda sér því enn á lífi í efri hlutanum en Blikar sogast neðar og þurfa að skoða sín mál rækilega. Þeir eru ekki svipur hjá sjón. Baráttan takmörkuð og trúin á eigin getu virðist ekki vera til staðar lengur. Andleysið var á köflum ótrúlega mikið og eftir góða byrjun fór allur vindur úr þeim.

FH hefur oft leikið betur og þurfti í raun að hafa ótrúlega lítið fyrir sigrinum. Sóknarþungi Blika var það lítill. FH varðist vel, átti fínar sóknarlotur og hefði getað unnið stærri sigur.

Breiðablik-FH  0-1

Áhorfendur: 1.282

Dómari: Þóroddur Hjaltalín Jr.  6.

Skot (á mark): 9-14 (3-3)

Varin skot: Ingvar 2 – Gunnleifur 2

Horn: 7-7

Aukaspyrnur fengnar: 12-17

Rangstöður: 1-2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×