Fótbolti

Félögin vilja fækka landsleikjum en FIFA vill fjölga þeim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karl-Heinz Rummenigge.
Karl-Heinz Rummenigge. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Stærstu félögin í Evrópu báru saman bækur sínar á þingi evrópska knattspyrnufélaga og hafa í framhaldinu heimtað róttækar breytingar á fyrirkomulagi landsleikja.

Félögin vilja fækka landsleikjum en í dag er möguleiki á að spila tólf landsleiki á ári. Félögin vilja fækka þeim um helming á sama tíma og FIFA vill að þjóðir eigi möguleika á því að spila 17 landsleiki á ári.

Núverandi samkomulag rennur út árið 2014 en fyrrnefnd tillaga FIFA að fjölga landsleikjum upp í 17 ára vakti sterk viðbrögð frá félögunum sem segja nú þegar vera nóg af tilgangslausum vináttulandsleikjum.

Tillaga evrópsku félaganna mun líklega vera að það verði sex landsleikjahlé í einni undankeppni sem tekur tvö ár og að hver þjóð spili þá tvo leiki í hverju hléi. Vináttulandsleikir í júní og ágúst yrðu fyrstu landsleikirnir sem væri hent út af borðinu.

„Þessir vináttulandsleikir fara aðeins fram til að menn græði meiri pening og af engri annarri ástæðu. Við verðum að hætta þessu. Félögin eru mikilvægustu aðilarnir í fótboltanum og án þeirra væri enginn fótbolti. Þau hafa samt enga rödd," sagði Karl-Heinz Rummenigge, formaður samtaka evrópska knattspyrnufélaga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×