Fótbolti

Er þetta versta vítaspyrna sögunnar?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Greyið hann Amir Sayoud hjá egypska liðinu Al Ahly átti ekki góðan dag á dögunum þótt að lið hans hafi fagnað örggum 4-0 bikarsigri á móti Kima Aswan. Amir Sayoud sem er 21 árs gamall Alsíringur er nú orðinn heimsfrægur á netinu fyrir víti sitt í leiknum sem margir hafa kallað verstu vítaspyrnu allra tíma.

Amir Sayoud ætlaði að vera flottur á því í umræddri vítaspyrnu og gabba markvörðinn með því að stoppa og þykjast ætla að skjóta. Það gekk ekki betur en að hann felldi sjálfan sig og hitti boltann svo illa að hann skoppaði laflaust í átt að markinu.

Það var ekki nóg með að Amir Sayoud væri búin að klikka á vítinu því dómari leiksins kunni ekki að meta þetta uppátæki hans og spjaldaði hann fyrir að taka víti á ólöglegan hátt. Það má sjá þetta stórmerkilega víti með því að smella hér fyrir ofan.

Myndbandið hefur slegið í gegn á netinu og þrátt fyrir dapra frammistöðu inn á vellinum þa er Amir Sayoud í dag kominn í hóp með frægustu fótboltamanna frá Alsír.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×