Fótbolti

Fyrrum landsliðsmaður Frakka handtekinn vegna skotárásar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vairelles í leik með Lyon árið 2002.
Vairelles í leik með Lyon árið 2002. Nordic Photos / AFP
Sóknarmaðurinn Tony Vairelles, fyrrum leikmaður franska landsliðsins, var um helgina handtekinn vegna skotárásar sem átti sér stað fyrir utan næturklúbb í Nancy á sunnudaginn.

Vairelles er 38 ára gamall og nú á mála hjá neðrideildarfélaginu FC Gueugnon. Hann á langan feril að baki og lék til að mynda með AS Nancy, Lyon og Lens. Landsleikirnir urðu alls átta talsins og komu allir á árunum 1998 til 2000.

Vairelles var að skemmta sér með vinum þegar þeim var vísað á dyr á umræddum næturklúbbi. Þeir sneri aftur stuttu síðar vopnaðir hafnaboltakylfum og ætluðu sér að lúskra á dyravörðunum. Skyndilega dró einn upp byssu og hóf skotárás. Alls særðust þrír.

Fimm menn voru handteknir á sunnudagsmorgun en einum var sleppt stuttu síðar. Vairelles er enn í haldi og kemur fyrir dómara í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×