Enski boltinn

Nemanja Vidic frá í allt að fimm vikur vegna kálfameiðsla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rio Ferdinand og Nemanja Vidic meiddust báðir á móti West Bromwich Albion.
Rio Ferdinand og Nemanja Vidic meiddust báðir á móti West Bromwich Albion. Mynd/Nordic Photos/Getty
Nemanja Vidic, fyrirliði Manchester United, gæti verið frá næstu fimm vikurnar vegna meiðsla á kálfa en félagi hans í miðri United-vörninni, Rio Ferdinand, verður hinsvegar ekki eins lengi frá og óttast var.

Rio Ferdinand meiddist aftan í læri í fyrsta leiknum á móti West Bromwich Albion og fyrst töldu læknar United að hann yrði frá í sex vikur. Nú lítur þetta betur út hjá Rio sem ætti að geta náð leiknum á móti Arsenal 28. ágúst næstkomandi.

„Vidic er meiddur í kálfavöðva sem þýðir að hann verður frá í fjórar til fimm vikur. Það er erfitt að spá fyrir um kálfameiðsli en þetta er lengri tími en við bjuggumst við," sagði Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, á blaðamannafundi í morgun.

„Þetta er ekki eins slæmt hjá Rio og hann ætti að ná Arsenal-leiknum. Hann verður væntanlega ekki orðinn góður fyrir mánudaginn en það er oft ótrúlegt að sjá hvað hlutirnir geta breyst á nokkrum dögum," sagði Ferguson en Tottenham Hotspur kemur í heimsókn á Old Trafford á mánudaginn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×