Enski boltinn

City og United juku forystuna | Heiðar skoraði í tapleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn City fagna í kvöld.
Leikmenn City fagna í kvöld.
Manchester City, Manchester United og Arsenal unnu öll sína leik í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Heiðar Helguson skoraði eitt og lagði upp annað en QPR tapaði samt fyrir Sunderland á heimavelli.

Þá gerði Liverpool markalaust jafntefli við Wigan á útivelli. Ali Al-Habsi, markvörður Wigan, varði vítaspyrnu Charlie Adam í síðari hálfleik og átti þess fyrir utan stórleik.

Newcastle er enn í frjálsu falli í deildinni en liðið tapaði nú fyrir West Brom á heimavelli, 3-2. Liðið hefur ekki unnið leik síðan í byrjun nóvember og er nú sautján stigum á eftir toppliði City.

Manchester United vann 5-0 stórsigur á Fulham í kvöld. United kláraði í raun leikinn með þremur mörkum í fyrri hálfleik en Wayne Rooney og Dimitar Berbatov skoruðu tvö síðustu mörkin undir lok leiksins. Var þetta fyrsta mark Berbatov í deildinni í vetur.

Sergio Agüero skoraði tvívegis fyrir Manchester City sem vann þægilegan 3-0 sigur á Stoke á heimavelli. Adam Johnson bætti við einu en City trónir sem fyrr á toppi deildarinnar með tveggja stiga forystu á United.

City verður því á toppi deildarinnar yfir jólin og er það í fyrsta sinn sem það gerist síðan 1929.

Liðin eru á góðri leið með að stinga önnur af í deildinni en Tottenham kemur næst með 34 stig, tíu á eftir City. Liðið á þó tvo leiki til góða og mætir Chelsea annað kvöld.

Arsenal er í sjötta sæti með 32 stig eftir 2-1 sigur á Aston Villa á útivelli. Yossi Benayoun var hetja liðsins en hann skoraði sigurmarkið undir lok leiksins eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Marc Albrighton skoraði mark Villa og var það 20 þúsundasta markið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Heiðar Helguson skoraði sitt sjöunda mark á tímabilinu og lagði upp sitt þriðja er lið hans, QPR, tapaði fyrir Sunderland, 3-2. Wes Brown skoraði sigurmark Sunderland undir lok leiksins en þetta var annar sigur liðsins á stuttum tíma eftir að Martin O'Neill tók við stjórn liðsins í byrjun mánaðarins.

Everton nældi sér svo í þrjú dýrmæt stig með sigri á Swansea á heimavelli.

Aston Villa - Arsenal 1-2

0-1 Robin van Persie, víti (16.), 1-1 Marc Albrighton (53.), 1-2 Yossi Benayoun (86.).

Everton - Swansea 1-0

1-0 Leon Osman (59.).

Fulham - Manchester United 0-5

0-1 Danny Welbeck (4.), 0-2 Nani (27.), 0-3 Ryan Giggs (42.), 0-4 Wayne Rooney (87.), 0-5 Dimitar Berbatov (89.).

Manchester City - Stoke 3-0

1-0 Sergio Agüero (28.), 2-0 Adam Johnson (35.), 3-0 Sergio Agüero (53.).

Newcastle - West Brom 2-3

0-1 Peter Odemwingie (19.), 1-1 Demba Ba (33.), 1-2 Gareth McAuley (43.), 2-2 Demba Ba (80.), 2-3 Paul Scharner (84.).

QPR - Sunderland 2-3

0-1 Nicklas Bendtner (18.), 0-2 Stéphane Sessegnon (52.), 1-2 Heiðar Helguson (62.), 2-2 Jamie Mackie (66.), 2-3 Wes Brown (88.).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×