Enski boltinn

Mancini: Mjög ánægður með að vera á toppnum um jólin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Aguero fagnar marki i gær.
Sergio Aguero fagnar marki i gær. Mynd/AP
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, getur verið ánægður með sína menn á heimavelli á árinu 2011. Liðið hefur unnið 17 deildarleiki, gert jafntefli og hefur ekki tapað einum einasta leik í ensku úrvalsdeildinni á heimavelli á þessu ári.

Manchester City vann 3-0 heimasigur á Stoke í gær og er því áfram með tveggja stiga forskot á nágranna sína í Manchester United. Þetta var 29 heimaleikur liðsins í röð án taps og City-menn hafa tekið öll þrjú stigin í 27 þeirra. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 1929 sem City situr í toppsætinu yfir jólin.

Stoke átti aldrei möguleika í leiknum og náði ekki einu skoti að marki. Yfirburðir City voru miklir en liðið lét sér nægja tvö mörk frá Sergio Aguero og eitt frá Adam Johnson.

„Þetta er það sama og gerist hjá liðum á móti (Manchester) United," sagði Roberto Mancini, stjóri Manchester City, eftir leikinn.

„Öll liðin sem spila á móti United mæta hrædd til leiks og þora ekki að sækja á United því liðið er búið að vera topplið í svo lanan tíma," sagði Mancini.

„Nú erum við líklega komnir í sömu stöðu. Það er alls ekki slæmt en stundum væri samt skemmtilegra að fá opinn leik þar sem bæði lið reyndu að spila sóknarbolta," sagði Mancini.

„Ég er mjög ánægður með að vera á toppnum um jólin. Þetta er góð jólagjöf til stuðningsmanna okkar sem ættu að geta notið jólanna enn frekar en það sem er mikilvægast er að vera þarna í lok tímabilsins. Það verður erfitt," sagði Mancini.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×