Enski boltinn

Heiðar hefur átt þátt í marki í sjö af síðustu níu leikjum sínum með QPR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heiðar Helguson var bæði með mark og stoðsendingu í 2-3 tapi Queens Park Rangers á móti Sunderland í ensku úrvalsdeildinni í gær. Hann hefur nú skorað 7 mörk og lagt upp tvö í ellefu leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Heiðar kom inn á sem varamaður í fyrstu tveimur leikjum sínum í vetur en eftir að hann fékk tækifærið í byrjunarliðinu á móti Blackburn Rovers 15. október hefur hann komið að marki í sjö af síðustu níu leikjum.

Heiðar hefur komið að marki í öllum leikjum nema á móti Norwich City á útivelli og Manchester United á heimavelli. Leikurinn í gær var fyrsti leikurinn þar sem hann nær bæði að skora og leggja upp mark en Heiðar fiskaði vítið sem hann skoraði úr á móti Chelsea.

Queens Park Rangers hefur skorað tólf mörk á þessum tíma og hefur Heiðar því átt þátt í 75 prósent marka liðsins undanfarnar níu vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×