Enski boltinn

Jafntefli í Lundúnarslag Tottenham og Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emmanuel Adebayor fagnar marki sínu í kvöld.
Emmanuel Adebayor fagnar marki sínu í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tottenham mistókst að saxa á forystu Manchester-liðanna á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þar sem liðið gerði jafntefli við Chelsea, 1-1, á heimavelli í kvöld.

Tottenham á enn leik til góða á önnur lið í toppbaráttunni en liðið er nú með 35 stig í þriðja sætinu, sjö stigum á eftir United og níu á eftir City.

Chelsea hefði með sigri komist upp í þriðja sætið á kostnað Tottenham en er nú með 33 stig í fjórða sætinu.

Tottenham byrjaði af miklum krafti í leiknum og uppskar mark strax á áttundu mínútu. Emmanuel Adebayor gerði það af miklu harðfylgi eftir sendingu Gareth Bale frá vinstri kantinum.

Það var ekki mikið í spilunum hjá Chelsea þegar að jöfnunarmarkið kom um stundarfjórðungi síðar. Ashley Cole fékk boltann á vinstri kantinum, fékk hann reyndar um leið í höndina, og gaf fyrir markið þar sem Daniel Sturridge var einn á auðum sjó og skoraði næsta auðveldlega.

Howard Webb, dómari leiksins ákvað að dæma ekki hendi á Cole sem leikmenn og stuðningsmenn Tottenham voru ekki hrifnir af.

En með markinu náði Chelsea að koma sér betur inn í leikinn sem var bæði opinn og skemmtilegur. Tottenham var meira með boltann en Chelsea fékk fleiri og betri færi til að skora sigurmarkið.

Tottenham fékk þó líka mjög góð færi, sérstaklega undir lok leiksins, en liðunum virtist einfaldlega fyrirmunað að skora. Besta dæmið um það var þegar að Ramires, miðjumaður Chelsea, fékk frían skalla rétt utan markteigs heimamanna en hann hæfði ekki markið.

Niðurstaðan því 1-1 jafntefli í síðasta leik ensku úrvalsdeildarinnar fyrir afar stutt jólafrí. Keppni heldur áfram á mánudag, á öðrum degi jóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×