Enski boltinn

Van der Vaart enn á ný tognaður aftan í læri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael van der Vaart.
Rafael van der Vaart. Mynd/Nordic Photos/Getty
Hollendingurinn Rafael van der Vaart getur ekki spilað með Tottenham í jólatörninni í ensku úrvalsdeildinni eftir að hann tognaði aftan í læri í jafnteflinu á móti Chelsea í gær.

Van der Vaart var tekinn útaf í hálfleik og Harry Redknapp óttast það að leikmaðurinn spili ekkert fyrr en á nýja árinu. „Já. það lítur út fyrir það," sagði Harry Redknapp eftir leikinn.

Rafael van der Vaart er 28 ára gamall og hefur verið að glíma við tognanir aftan í læri allt þetta ár. „Hann virðist sífellt vera í vandræðum með tognanir aftan í læri. Hann er frábær leikmaður en við þurfum að halda honum heilum," sagði Redknapp.

Það eru fleiri Tottenham-menn að glíma við meiðsli. Jermain Defoe og Younes Kaboul eru líka tognaðir aftan í læri og það er ólíklegt að Ledley King verði með í næsta leik. Aaron Lennon, Michael Dawson og Tom Huddlestone eru líka allir meiddir.

Tottenham á eftir að spila við Norwich og Swansea á þessu ári og fara leikirnir fram 27. og 31. desember. Fyrsti leikur nýja ársins er síðan á móti West Brom á heimavelli 3. janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×