Enski boltinn

Gibbs þarf að fara í aðra aðgerð - frá í mánuð til viðbótar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kieran Gibbs.
Kieran Gibbs. Mynd/Nordic Photos/Getty
Varnarmanna-vandræði Arsenal halda áfram og í dag fréttist af því að bakvörðurinn Kieran Gibbs sé ekkert á leiðinni inn í Arsenal-liðið á næstunni sem er allt annað en góðar fréttir fyrir Arsene Wenger.

Gibbs hefur verið frá síðan í október vegna kviðslits og Arsenal-menn voru að vonast til þess að hann kæmi aftur inn í liðið í þessari viku. Hann þarf hinsvegar að fara í aðgerð á nára og verður ekkert með næsta mánuðinn.

Varnarmennirnir Johan Djourou, Andre Santos, Carl Jenkinson og Bacary Sagna eru einnig frá vegna meiðsla og bakvarðarvandræði liðsins hafa þýtt það að bæði Thomas Vermaelen og Laurent Koscielny hafa spilað mikið sem bakverðir að undanförnu.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, vill ekkert gefa það út hvort hann ætli að reyna að kaupa bakvörð í janúar en það má búast fastlega við því að franski stjórinn sé að horfa í kringum sig.

Arsenal er í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar tólf stigum á eftir toppliði Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×