Enski boltinn

Malouda: Get ekki einu sinni sagt Anzhi Makhachkala

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Malouda brennir af færi í leiknum gegn Fulham í gær. Hann er þó með þessa fínu klippingu.
Malouda brennir af færi í leiknum gegn Fulham í gær. Hann er þó með þessa fínu klippingu. Nordic Photos / Getty Images
Frakkinn Florent Malouda hjá Chelsea segir það ekki rétt að hann hafi þegar samþykkt að ganga til liðs við rússneska félagið Anzhi Makhachkala.

Malouda er þó óánægður með hversu lítið hann hefur fengið að spila hjá liði sínu, Chelsea, en hann hefur aðeins fjórum sinnum verið í byrjunarliðinu í deildarleik á tímabilinu.

Fjölmiðlar segja að hann sé mögulega á leið frá Chelsea í janúar og að hann gæti mögulega endað í Rússlandi. „Ég get ekki einu sinni borið fram nafn félagsins," sagði Malouda við franska fjölmiðla.

„Ég veit ekki hvaðan þessar sögusagnir eru komnar. Þær eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Ég hef ekkert að fela og er að segja ykkur satt."

Hann segir það koma til greina að fara frá Chelsea. „Ég er ekki ánægður með hversu lítið ég hef fengið að spila. Það er ekki í takti við mín markmið. Ef nauðsyn krefur þá fer ég eitthvert annað."

Forráðamenn Anzhi ætla sér stóra hluti með félagið. Þeir keyptu Samuel Eto'o frá Inter í sumar og Yuri Zhirkov frá Chelsea. Félagið hefur nú staðfest að það hefur ráðið Rússann Yuri Krasnozhan sem þjálfara liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×