Enski boltinn

Pavlyuchenko með tilboð frá Anzhi Makhachkala

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Umboðsmaður Rússans Roman Pavlyuchenko segir að kappinn sé með tilboð frá Anzhi Makhachkala og að hann sé reiðubúinn að semja við félagið ef hann fær ekki betra tilboð í janúar.

Pavlyuchenko hefur afskaplega lítið fengið að spila með Tottenham á leiktíðinni en virðist þó yfirleitt skora þegar hann fær tækifærið. Harry Redknapp, stjóri Tottenham, segist vilja halda honum hjá félaginu.

Kappinn er sagður óánægður með hversu lítið hann fær að spila og segir umboðsmaður hans að á borðinu sé þriggja ára samningstilboð frá Anzhi.

„Í fyrstu hunsaði hann algjörlega áhuga Anzhi," sagði umboðsmaðurinn í samtali við rússneska fjölmiðla. „Hann var ekki mótfallinn því að fara aftur til Rússlands en þá ekki til liðs sem væri í Makhachkala. En Roman er orðinn þreyttur á óvissunni og hversu lítið hann fær að spila."

„Hann er með gott tilboð frá Anzhi, ekki síst fjárhagslega. Roman mun taka því nema að honum berist betra tilboð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×