Enski boltinn

Bendtner og Cattermole skemmdu saman bíla á bæjarrölti í Newcastle

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicklas Bendtner og Lee Cattermole reyna hér að stoppa Raul Meireles hjá Chelsea.
Nicklas Bendtner og Lee Cattermole reyna hér að stoppa Raul Meireles hjá Chelsea. Mynd/Nordic Photos/Getty
Nicklas Bendtner og Lee Cattermole eru ekki í alltof góðum málum því BBC segir frá því að þeir hafi verið handteknir í gær grunaðir um að hafa skemmt bíla í miðbæ Newcastle. Báðir eru lausir gegn tryggingu og geta því spilað með Sunderland um helgina þegar liðið mætir Tottenham á White Hart Lane.

Bendtner og Cattermole eru báðir 23 ára gamlir, Bendtner er á láni frá Arsenal og Cattermole hefur verið fyrirliði Sunderland undanfarin tímabil eftir að hafa verið keyptur til félagsins frá Wigan árið 2009.

„Lögreglan getur staðfest það að 15. desember voru tveir 23 ára gamlir menn handteknir grunaðir um skemmdarverk. Rannsókn stendur yfir á skemmdum á bílum á Stowell Street í miðbæ Newcastle klukkan tíu að kvöldi þann 6. desember síðastliðinn," sagði talsmaður lögreglunnar við BBC.

Lee Cattermole er miðjumaður og þekktur fyrir að láta finna fyrir sér inn á vellinum enda hefur hann fengið ófá spjöldin í gegnum tíðina. Nicklas Bendtner er danskur landsliðsmaður sem náði ekki að festa sig í sessi hjá Arsenal og hefur aðeins skoraði tvö mörk í fyrstu tíu úrvalsdeildarleikjum sínum með Sunderland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×