Enski boltinn

Redknapp ætlar ekki að selja Pavlyuchenko

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, hefur látið Rússann Roman Pavlyuchenko vita af því að hann fá ekki að fara frá félaginu í janúar. Pavlyuchenko kom inn á sem varamaður og skoraði sigurmark Tottenham á móti Sunderland í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Pavlyuchenko ætlar sér að komast í EM-hóp Rússa næsta sumar og til þess þarf hann að spila meira. Pavlyuchenko hefur aldrei verið í byrjunarliði Tottenham í deildinni á þessu tímabili og var þarna aðeins að koma inn í þriðja sinn sem varamaður.

„Einhverjir eru alltaf óánægðir. Þeir sem þú velur í liðið elska þig en þeir sem þú velur ekki þola þig ekki," sagði Harry Redknapp.

„Pav er frábær leikmaður, hefur mikla hæfileika og getur klárað vel. Hann hefur bara verið óheppinn," sagði Redknapp og bætti við:

„Rafael van der Vaart, Adebayor og Jermain Defoe hafa allir verið í frábæru formi, hann byrjaði tímabilið ekki vel og datt því neðar í goggunarröðinni," sagði Redknapp.

„Þetta er erfitt fyrir hann því hann er landsliðsmaður sem vill komast á Evrópumótið. Ég ætla samt að halda öllum fjórum því við þurfum svona marga framherja," sagði Redknapp.

Það er hægt að sjá sigurmarkið hans Roman Pavlyuchenko með því að smella á svipmyndir úr leiknum hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×