Enski boltinn

Sturridge: Það væri heimska að afskrifa Chelsea í titilbaráttunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Sturridge skoraði fyrir Chelsea á laugardaginn en það dugði ekki til því liðið gerði 1-1 jafntefli á móti botnliði Wigan. Sturridge tjáði sig um leikinn og möguleika Chelsea-liðsins á heimasíðu Chelsea.

Chelsea er níu stigum á eftir toppliði Manchester City eftir úrslit helgarinnar, missti Tottenham upp fyrir sig og er því aftur komið niður í fjórða sætið.

„Svona jafntefli eru svekkjandi því við lögðum svo mikið á okkur allan leikinn og fengum síðan á okkur þetta jöfnunarmark í lokin. Við munum samt rífa okkur strax upp og leggjum bara meira á okkur á æfingum fyrir næsta leik," sagði Daniel Sturridge.

„Þetta er pirrandi fyrir alla en það er mikilvægt að við komum strax sterkir til baka sem ég veit að við gerum. Við höfðum gert það síðustu vikur þegar við fórum í gegnum erfitt leikjaprógram með glæsibrag," sagði hinn 22 ára gamli Sturridge.

„Þetta er besta deildin í heimi og sex efstu liðin geta öll orðið meistarar. Við erum í þeim hópi og ég hef fulla trú á því að við getum tekið titilinn. Það eru ennþá fimm mánuðir eftir af mótinu og það væri heimska að afskrifa Chelsea í titilbaráttunni. Við munum berjast til síðasta leiks," sagði Sturridge en hann hefur leikið vel í vetur og er með 8 mörk í 12 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Það má sjá mörkin í leiknum með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×