Enski boltinn

Villas-Boas: Framtíð mín hjá Chelsea er ekki í neinni hættu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea.
Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea. Mynd/Nordic Photos/Getty
Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea, telur sig ekki vera í neinni hættu á að missa starfið þrátt fyrir dapurt gengi Chelsea-liðsins að undanförnu. Chelsea hefur þegar tapað sex leikjum á tímabilinu þar af fjórum þeirra á heimavelli sínum Stamford Bridge.

Framundan eru mikilvægir leikir í bæði ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni og þeir gætu ráðið miklu um örlög Chelsea á tímabilinu.Villas-Boas segir að desember muni ekki ráða því hvort að hann fái að sitja áfram í stjórstólnum á Brúnni.

„Framtíð mín hjá Chelsea er ekki í neinni hættu. Ég var fenginn hingað í þriggja ára verkefni og við höfum trú á því," sagði Andre Villas-Boas.

Chelsea byrjaði tímabilið vel en er nú komið niður í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir þrjú töp í síðustu fimm leikjum þar af tvö þeirra á heimavelli.

„Það er engin krísa hjá okkur. Við þurfum að taka okkur saman um að halda áfram að vinna í okkar leik og trúa því að við getum snúið gengi liðsins við," sagði Villas-Boas og hann ætlar að halda áfram að spila sóknarleikinn sem margir telja sé að verða honum að falli.

„Þessi hugmyndafræði er ekki krabbamein. Við erum ekki að tala um eitthvað sem er rangt. Við erum að tala um leikstíl sem við kunnum vel við og spilum af stolti. Þetta er bara góður fótbolti," sagði Villas-Boas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×