Enski boltinn

Dalglish: Ég finn til með Lucas en vorkenni ekki okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool með Luis Suarez.
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool með Luis Suarez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, getur ekki kallað á Alberto Aquilani úr láni frá AC Milan og segir að Liverpool-liðið ráði alveg við það að missa miðjumanninn Lucas Leiva. Lucas sleit krossband á móti Chelsea í vikunni og verður ekki meira með á leiktíðinni.

„Ef þið skoðið reglurnar þá sjáið þið að við getum ekki fengið Aquilani til baka," sagði Kenny Dalglish um mögulega endurkomu Alberto Aquilani. Dalglish vildi ekkert ræða um hugsanlega kaup á miðjumanni í janúar.

„Við þurfum ekki að taka ákvörðun í byrjun desember um það sem við gerum í janúar. Við erum með sterkan hóp og erum klárir í að ráða við það sem kemur upp eins og leikbönn, meiðsli, formleysi, þreytu og hvað sem er," sagði Dalglish.

„Við myndum að sjálfsögðu óska þess að Lucas væri heill en svo er bara ekki staðan. Það er undir okkur komið að vinna út úr þessu og þetta er eitt af prófunum sem fótboltalið þurfa að ganga í gegnum. Ég finn til með Lucas en vorkenni ekki okkur," sagði Dalglish.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×