Enski boltinn

Eiginkona Gary Speed kom að honum - ætluðu að eyða jólunum í Dúbæ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Speed með konu sinni Louise og Shay Given og konu hans.
Gary Speed með konu sinni Louise og Shay Given og konu hans. Mynd/Nordic Photos/Getty
Enskir fjölmiðlar fengu það staðfest í gær að það hafi verið eiginkona Gary Speed, Louise, sem kom að honum í bílskúrnum á heimili þeirra eftir að hann hafði svipt sig lífi á sunnudagsmorguninn.

Gary Speed var aðeins 42 ára gamall og var að gera flotta hluti sem landsliðsþjálfari Wales. Gríðarlega sorg hefur verið út um allt Bretland síðan að fréttist af dauða hans.

Gary Speed og Louise höfðu verið gift frá árinu 1996 en þau áttu saman tvo unglingspilta, hinn 14 ára gamla Ed og hinn 13 ára gamla Tommy.

„Eiginkona Mr Speed fann hann og hringdi í neyðarlínuna. Hún fékk þar leiðbeiningar um hvað hún átti að gera á meðan sjúkrabíllinn var á leiðinni," sagði lögreglumaðurinn Peter Lawless við blaðamenn.

Gary og Louise Speed voru hamingjulega gift og þau áttu ekki í neinum hjónabandaerfiðleikum eða höfðu rifist kvöldið áður en hann greip til þess örþrifaráðs að enda líf sitt.

Carlton Palmer, fyrrum liðsfélagi Gary Speed hjá Leeds, býr nú í Dúbæ og hann sagði blaðamönnum þar að Speed hafi ætlað að eyða jólunum í Dúbæ ásamt fjölskyldu sinni.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×