Fótbolti

Hátt hlutfall fatlaðra barna hjá fyrrum landsliðsmönnum frá Alsír

Mustapha Dahleb frá Alsír er hér í baráttunni gegn hinum eina sanna Paul Breitner landsliðsmanni Þýskalands.
Mustapha Dahleb frá Alsír er hér í baráttunni gegn hinum eina sanna Paul Breitner landsliðsmanni Þýskalands. AFP
Óvenjuhátt hlutfall leikmanna sem lék með landsliði Alsír á árunum í kringum 1982 hafa eignast fötluð börn. Og leikur grunur á að leikmenn hafi tekið lyf á þessum tíma án vitundar um aukaverkanir og hættuna sem fólst í því að taka þessi lyf. Alsír kom gríðarlega á óvart í fyrsta leiknum á heimsmeistaramótinu árið 1982 á Spáni þar sem lið Vestur-Þjóðverja tapaði fyrir Alsír 2-1.

Sigur Alsír gegn V-Þjóðverjum á HM 1982 vakti að sjálfsögðu heimsathygli en þetta var í fyrsta sinn sem Alsír keppti í úrslitum HM. Alls hafa átta leikmenn úr landsliðshóp Alsír eignast alvarlega fötluð börn og er þess nú krafist að málið verði rannsakað.

Mohamed Chaib, fyrrum leikmaður landsliðs Alsír, segir við AFP fréttastofuna að það verði að rannsaka hvort leikmenn hafi í raun verið „tilraunadýr". Chaib segir að leikmenn hafi fengið ýmis lyf í æfingabúðum landsliðsins og það þurfi að rannsaka hvort inntaka á þessum lyfjum hafi gert það að verkum að margir leikmenn hafi eignast fötluð börn á síðustu árum.

Chaib á þrjár dætur sem eru allar með alvarlegan vöðvahrörnunarsjúkdóm. Ein þeirra lést árið 2005, þá 18 ára gömul. Djamel Menad, fyrrum landsliðsmaður Alsír, eignaðist einnig dóttur sem var með vöðvahrörnunarsjúkdóm árið 1993. Menad er ekki í vafa um að það sé samhengi á milli lyfjainntöku leikmanna og þeirra sjúkdóma sem börn þeirra hafa fengið.

Leikmennirnir benda á að læknar frá austur-Evrópu hafi fylgt liðinu á þessum tíma og grunur leikur á að þeir hafi notað leikmennina sem „tilraundýr".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×