Fótbolti

Jóhann Berg skoraði í sigri AZ Alkmaar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
AZ Alkmaar styrkti stöðu sín á toppi hollensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eftir 2-0 sigur á Utrecht á heimavelli í kvöld. AZ Alkmaar er með sex stiga forskot á PSV Eindhoven eftir þennan góða sigur.

Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á sem varamaður á 77. mínútu og innsiglaði sigur AZ Alkmaar tólf mínútum síðar. Rasmus Elm hafði skorað fyrra mark AZ á 66. mínútu.

Þetta var annað deildarmark Jóhanns á tímabilinu en hann skoraði líka í 3-0 sigri á FC Groningen í lok ágúst. Jóhann skoraði markið með glæsilegu skoti fyrir utan vítateig en það má sjá með því að smella hér fyrir ofan.

AZ Alkmaar hefur ekki tapað í tólf síðustu leikjum sínum í deildinni og hefur ennfremur náð í 32 af 36 mögulegum stigum í þessum tólf leikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×