Íslenski boltinn

Fylkismenn stóla á háar upphæðir frá borginni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íþróttafélagið Fylkir þarf að reisa 1.500 manna stúku á heimavelli sínum í Árbænum til að fá að spila heimaleiki sína í Pepsi-deild karla næsta sumar þar. Af byggingunni verður ekki nema fyrir stuðning yfirvalda í Reykjavíkurborg.

Björn Gíslason er formaður Fylkis og hann mun á morgun, ásamt öðrum forráðamönnum félagsins, funda með Degi B. Eggertssyni, formanni borgarráðs, og öðrum fulltrúum Reykjavíkurborgar. Björn segir að aðeins skorti fjármagn, allt annað sé klárt. En ef ný stúka á að rísa í tæka tíð þurfi framkvæmdir að hefjast sem allra fyrst.

"Það er búið að samþykkja deiluskipulag á svæðinu fyrir byggingu stúkunnar og teikningar af henni eru tilbúnar," segir Björn. "Það eina sem vantar er grænt ljós frá borginni."

Björn segir að grófar kostnaðaráætlanir geri ráð fyrir því að bygging stúkunnar kosti 150-160 milljónir króna. Félagið getur sótt um styrk frá Mannvirkjasjóði KSÍ en hámarksstyrkur úr honum er 10 milljónir króna. Eftir stendur því ansi væn upphæð sem myndi falla á Reykjavíkurborg. Miðað við fréttir af fjármálum Reykjavíkurborgar að undanförnu er ljóst að þar er slegist um hverja einustu krónu.

Björn segir stöðu Fylkis slæma samanborið við önnur úrvalsdeildarlið, hvort sem er í Reykjavík eða ekki. "Við höfum verið með lið í efstu deild karla samfellt í tólf ár og í sex ár í efstu deild kvenna. Engu að síður erum við með langlélegustu aðstöðu fyrir áhorfendur af öllum úrvalsdeildarfélögunum. Nú er undanþágufresturinn liðinn og ef stúkan á að rísa í tæka tíð þyrftum við helst að fara að byrja."

Hann segir ekki raunhæft að leita annað, til dæmis til fyrirtækja, til að standa straum af byggingu stúkunnar. "Ástandið í þjóðfélaginu er þannig að við getum ekki safnað neinu. Við höfum hins vegar lagt til við borgina að fá þennan pening í áföngum á næstu árum og að félagið myndi fjármagna byggingu stúkunnar í vetur með lántöku. En þá þyrfti samningur við borgina að liggja fyrir," segir Björn.

Það er leyfiskerfi KSÍ sem leggur á þær kvaðir að öll félög í efstu deild karla hér á landi þurfi að vera með yfirbyggða stúku fyrir áhorfendur. Leyfiskerfið samræmist kröfum sem Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, gerir til sinna aðildarsambanda.

Fylkir og ÍBV eru einu félögin í efstu deild sem ekki eru með yfirbyggða stúku og hafa þau verið á undanþágu í um áratug. Undanþágufresturinn rennur út fyrir næsta tímabil en Eyjamenn eru á góðri leið með að fjármagna byggingu nýrrar áhorfendastúku við Hásteinsvöll.

"Við erum að horfast í augu við það að Fylkir verði eina liðið í Pepsi-deildinni næsta sumar sem verði ekki með stúku og geti þar með ekki spilað á sínum heimavelli," segir Björn en þá þyrfti félagið líklega að spila sína leiki á Laugardalsvellinum.

"Það yrði verulegur skellur fyrir knattspyrnuna í Árbænum," segir Björn um þá tilhugsun. "Við treystum til að mynda á tekjur af sölu auglýsingaskilta á vellinum, veitingasölu á leikjum og fleira í þeim dúr. Okkur hugnast illa að þurfa að fara úr Árbænum."

Björn segir að enn sem komið er hafi félagið engin viðbrögð fengið frá borginni í þessu máli. "En ég er vongóður um að borgaryfirvöld sýni okkur skilning og geri við okkur samning til nokkurra ára."

Ekki náðist í Dag B. Eggertsson, formann borgarráðs Reykjavíkurborgar, í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×