Enski boltinn

Jagielka ekki með gegn Svíum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jagielka, til hægri, fagnar marki Frank Lampard í leiknum gegn Spáni um helgina.
Jagielka, til hægri, fagnar marki Frank Lampard í leiknum gegn Spáni um helgina. Nordic Photos / Getty Images
Phil Jagielka, varnarmaður Everton og enska landsliðsins, þurfti að draga sig úr landsliðshópi Englands fyrir leikinn gegn Svíum á morgun.

Jagielka stóð sig vel í 1-0 sigri Englands á heims- og Evrópumeisturum Spánar um helgina en hann hefur verið að spila undanfarnar vikur þrátt fyrir meiðsli í tá.

Fabio Capello, þjálfari enska landsliðsins, lét sprauta Jagielka fyrir leikinn um helgina en hefur ákveðið að gefa honum nú frí. Meiðslin urðu þó ekki verri í leiknum.

Lið Englands verður nokkuð mikið breytt í leiknum á morgun en þá koma þeir John Terry og Gary Cahill inn í vörn liðsins fyrir þá Jagielka og Gary Cahill. Einnig er talið að Jack Rodwell, Daniel Sturridge og Kyle Walker muni allir spila í byrjunarliði Englands í fyrsta sinn.

Þá mun Capello einnig vera að íhuga að gefa markverðinum Scott Carson tækifæri í stað Joe Hart en þrjú ár eru síðan að Carson lék síðast með enska landsliðinu. Carson stóð þá í marki Englands í 3-2 tapi gegn Króatíu sem kostaði Englands sæti í úrslitakeppni EM 2008. Það var einnig síðasti leikur liðsins undir stjórn Steve McClaren.

Carson er nú á mála hjá Bursaspor í Tyrklandi en hann var seldur þangað frá West Brom fyrir 2,1 millJón punda í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×