Enski boltinn

Tevez skrópaði aftur á æfingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez í leik með Manchester City fyrr á leiktíðinni.
Carlos Tevez í leik með Manchester City fyrr á leiktíðinni. Nordic Photos / Getty Images
Carlos Tevez skrópaði aftur á æfingu hjá Manchester City í gær þar sem hann er enn staddur í Argentínu eins og áður hefur komið fram.

Tevez fór í leyfisleysi til Argentínu í byrjun síðustu viku en forráðamenn City hafa sagt enskum fjölmiðlum að félagið hafi ætlast til þess að Tevez yrði hjá félaginu á meðan landsleikjafríinu stæði.

Fulltrúar Tevez sögðu við BBC í gærkvöldi að hann væri enn í Argentínu en að þeir hefðu ekkert heyrt af neinum yfirvofandi refsiaðgerðum af hálfu félagsins í hans garð.

Forsagan ætti að vera öllum kunn. Tevez lýsti því margoft yfir fyrr á þessu ári að hann vildi komast í burtu frá félaginu en án árangurs. Hann neitaði svo að koma inn á sem varamaður í leik með City gegn Bayern München í Meistaradeildinni fyrr í haust og var fyrir það sektaður um tveggja vikna laun.

Síðan þá hefur hann ekkert spilað og er ekki útlit fyrir að það muni breytast. Hann fer líklega frá félaginu í janúar næstkomandi en City ætlar þó ekki að sleppa honum ódýrt.

„Það er stutt í janúar,“ sagið Gordon Taylor, framkvæmdarstjóri leikmannasamtakanna í Englandi. Hann hefur áhyggjur af Tevez. „En ég vil að þetta mál fái farsæla lausn fyrir þann tíma.“

„Hann þarf að spila. En til þess þarf hann að vera í formi og þá þarf hann að æfa. Hann er knattspyrnumaður, og knattspyrnumenn þurfa að spila.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×