Enski boltinn

Terry: Nýt stuðnings um allan heim

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Terry á blaðamannafundinum í gær.
Terry á blaðamannafundinum í gær. Nordic Photos / Getty Images
John Terry segir að hann hafi fengið víðtækan stuðning úr öllum heimshornum en hann er nú ásakaður um að hafa beitt Anton Ferdinand, leikmann QPR, kynþáttaníði í leik fyrir þremur vikum síðan.

Málið hefur fengið gríðarlega umfjöllun í Englandi og um allan heim. Terry verður væntanlega fyrirliði enska landsliðsins sem mætir því sænska í vináttulandsleik á Wembley-leikvanginum í kvöld.

Terry hefur ekki viljað tjá sig um deiluna með beinum hætti síðustu daga en sagði þó þetta:

„Fólk, leikmenn og þjálfarar víðs vegar að hafa hringt í mig og veitt mér sinn stuðning,“ sagði Terry við enska fjölmiðla. „Þeir hafa sýnt mér mikinn stuðning en ég vil þó ekki tala um hvaða einstaklingar þetta eru.“

Terry hefur lent í ýmislegu á ferlinum en alltaf hefur hann haldið áfram, líkt og hann virðist gera nú. „Það skiptir miklu máli að taka jafnt á þessum hlutum, líkt og ég hef gert allan minn feril.“

„Ég hef alltaf elskað að spila fótbolta. Ég gerði það sem krakki með vinum mínum og mig dreymdi um það þá að gerast atvinnumaður. Það getur enginn tekið það af mér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×