Enski boltinn

Carragher nær líklega leiknum gegn Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carragher í leik með Liverpool.
Carragher í leik með Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Steve Clark, aðstoðarstjóri Liverpool, segir góðar líkur á því að Jamie Carragher geti spilað með liðinu gegn Chelsea um helgina.

Carragher hefur misst af síðustu tveimur leikjum liðsins vegna meiðsla í kálfa en þessi 33 ára gamli varnarmaður byrjaði að æfa aftur í upphafi vikunnar.

„Við vildum gefa honum tíma til að jafna sig en hann hefur náð að æfa síðustu tvo dagana. Hann kemur til greina um helgina ef ekkert óvænt gerist,“ sagði Clark við heimasíðu Liverpool.

Carragher hætti fyrir löngu að gefa kost á sér í enska landsliðið og því fagnaði hann að hafa fengið landsleikjafríið til að jafna sig á meiðslunum.

„Þetta er besti tíminn til að meiðast. Ég er mjög ánægður með að vera byrjaður aftur, hvort sem ég verð í byrjunarliðinu eða ekki um helgina. Það er undir þjálfaranum komið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×