Enski boltinn

Fimm ára stuðningsmaður City að æfa með Man Utd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson er knattspyrnustjóri Manchester United.
Alex Ferguson er knattspyrnustjóri Manchester United. Nordic Photos / Getty Images
Charlie Jackson, fimm ára undrabarn í fótbolta og eldheitur stuðningsmaður Manchester City, er byrjaður að æfa með jafnöldrum sínum í Manchester United.

Það er enska götublaðið The Mirror sem segir frá þessu í dag og staðhæfir að fulltrúar United hafi fylgst með þessum unga dreng frá því að hann var þriggja ára gamall.

Hæfileikar hans með boltann munu vera miklir og eru foreldrar hans, Andy og Claire, hæstánægð með að guttinn sé kominn til United, þó svo að þau séu öll stuðningsmenn City.

„Átrúnaðargoðin hans eru Joe Hart og Mario Balotelli. Í fyrstu var hann eyðilagður yfir því að þurfa að æfa með Manchester United en hann er farinn að venjast tilhugsuninni og finnst gaman á æfingum,“ sagið pabbinn Andy.

„Þetta er frábært tækifæri. Fólk virðist slegið yfir því hversu mikla hæfileika hann hefur í boltanum og á erfitt með að trúa því að hann sé bara fimm ára gamall.“

„En við ætlum ekki að setja neina pressu á hann. Það væri þó gaman ef honum tækist að spila með City einn daginn.“

Smelltu hér til að lesa frétt Mirror og sjá myndir af kappanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×