Enski boltinn

Tólf ára strákur hafnaði Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Jordan Young, tólf ára miðjumaður hjá unglingaliði Swindon Town, fékk á dögunum samningstilboð frá stórliði Chelsea en strákurinn ákvað að vera áfram hjá Swindon þar sem hann hefur spilað frá því að hann varð átta ára gamall.

Jeremy Newton, yfirmaður barna og unglingastarfs Swindon Town, sagði frá þessu í viðtali við BBC. „Við fengum símtal frá Chelsea og þeir vildu kaupa hann. Strákurinn hafði þá tekið þá ákvörðun sjálfur að vera áfram hjá okkur," sagði Newton.

Jordan Young býr í Chippenham en njósnarar Chelsea höfðu komið auga á hann og voru það hrifnir af leikmanninum að samningur var kominn á borðið.

„Það er erfið staða fyrir foreldra þegar lið eins og Chelsea sýnir syni þeirra áhuga. Strákurinn var hinsvegar búinn að hugsa um þetta lengi. Þetta var stór ákvörðun fyrir 12 ára strák en foreldrarnir leyfðu honum að taka hana sjálfur," sagði Jeremy Newton.

Jordan Young spilar á miðri miðjunni og er nýbúinn að skrifa undir samning við Swindon Town til ársins 2015 en hann verður þá orðinn sextán ára gamall. Strákurinn er teknískur og með góðan leiksskilning en svo verða menn að sjá til hvernig hann vex og dafnar á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×