Enski boltinn

Redknapp nagar sig í handabakið fyrir að hafa selt Taarabt

Stefán Árni Pálsson skrifar
Harry Redknapp
Harry Redknapp Mynd. / Getty Images
Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspurs, sagði á dögunum  að hann sé hræddur um að Adel Taarabt, leikmaður QPR, eigi eftir að reynast honum erfiður í leiknum um helgina, en Taarabt var um tíma leikmaður undir hans stjórn hjá Tottenham.

Tottenham mætir QPR á White Hart Lane síðar í dag. Taarabt kom til Tottenham aðeins 17 ára gamall og var vænst mikils af leikmanninum. Fátt gekk upp hjá framherjanum hjá félaginu og því var hann lánaður til QPR tvö tímabil í röð.

Neil Warnock, knattspyrnustjóri QPR, festi síðan kaup á leikmanninum fyrir síðasta tímabil. Taarabt gerði 19 mörk fyrir félagið á síðustu leiktíð og spilaði stórt hlutverk hjá liðinu sem komst upp í úrvalsdeildina.

„Hann er algjör vitleysingur, en með mikla hæfileika á vellinum,“ sagði Redknapp.

„Þegar hann kom til Tottenham átti hann að verða næsti Zidane, en það er aðeins einn Zidane og erfitt að feta í hans fótspor“.

„Taarabt getur spilað hvar sem er á vellinum og hefur mikla hæfileika, en oft snýst málið um hvort hausinn á honum sé rétt skrúfaður á“.

„Ég vildi ekki selja leikmanninn og hafði það alltaf á tilfinninguna að það myndi  bíta mig í rassinn síðar, vonandi gerist það ekki um helgina“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×